Afleiðingar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar í Japan í mars síðastliðnum á japanskan sjávarútveg eru að koma æ betur í ljós. Þannig eru aðeins 4% af fiskiskipum í borginni Rikuzentakata í nothæfu ástandi eftir náttúruhamfarirnar, að því er fram kemur á vefnum fis.com.
Þar segir að af 1.346 fiskiskipum á svæðinu séu aðeins 53 skip nothæf án lagfæringar. Einnig verður hægt að nota um 290 skip síðar eftir nauðsynlegar viðgerðir. Restin af skipunum hefur annað hvort týnst eða skipin eru það mikið skemmd að ekki borgar sig að gera við þau.
Þá er einnig upplýst að framlög úr sjóði, sem japönsk stjórnvöld hafa stofnað til að bæta fiskimönnum tjónið, renni á árinu 2011 aðeins til útgerða skipa sem eru í sameign, t.d. í eigu samvinnufélaga fiskimanna. Útgerðarmenn báta í einkaeigu hafa einnig beðið um aðstoð frá stjórnvöldum.