Nú skilur aðeins 0,6% á milli í samningaviðræðunum um makrílinn í Björgvin í Noregi, að því er Fiskeribladet/Fiskaren hefur í dag eftir John Spencer aðalsamningamanni Evrópusambandsins. Hann segir að það sé alltof lítið til þess að láta stranda á.
Ekkert hefur verið gefið upp opinberlega um skiptinguna milli deiluaðila en eftir því sem Fiskeribladet/Fiskaren kemst næst er gert ráð fyrir að Ísland og Færeyjar fái til samans 23%, sem þýðir að Noregur fær rúmlega 22% og ESB rúm 50%. Þá eru eftir tæp 5% fyrir Rússland, Grænland og aðra.
Blaðið segir ennfremur að deiluaðilar séu ekki á eitt sáttir um það hver heildarkvótinn eigi að verða. Ísland vilji halda sig við 890.000 tonn (eins og Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til fyrir þetta ár) en Noregur og ESB séu opin fyrir að auka kvótann í 1,3 milljónir tonna og hugsanlega gæti niðurstaðan orðið hátt í 1,5 milljónir tonna. Norska blaðið segir að afstaða Íslands byggist m.a. á ótta um að ef kvótinn verði svo stór muni stofninn minnka sem aftur gæti leitt til þess að makríllinn hætti að leita til Íslands í ætisleit.
Þá er hermt að Færeyingar séu helsti þröskuldurinn fyrir lausn á lokasprettinum en þeir hafa krafist hærri hlutdeildar en Ísland.