Hlutaskiptakerfi útvegsmanna og sjómanna getur ekki staðið óbreytt eftir tilkomu nýrra laga um veiðigjöld. Takist ekki samningar um breytingar vill aðalfundur LÍÚ að leitað verði samþykkis félagsmanna um verkbann.

Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar LÍÚ þar sem vikið er að kjaraviðræðum útvegsmanna og sjómanna. Samþykktin er svohljóðandi: „Með lögum nr. 74/2012 voru veiðigjöld sem útgerðinni er gert að greiða margfölduð. Gjaldtakan nemur allt að 20% af aflaverðmæti einstakra fisktegunda. Þá hefur kostnaður og aðrar álögur stjórnvalda aukist umtalsvert. Við þessar aðstæður getur hlutaskiptakerfi útvegsmanna og sjómanna ekki staðið óbreytt.

Takist ekki samningar um að tekið verði tillit til þessa aukna kostnaðar við skiptingu aflaverðmætis á milli útvegsmanna og sjómanna beinir fundurinn því til stjórnar samtakanna að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um boðun verkbanns."