Landhelgisgæslan gegnir veigamiklu hlutverki í öryggi sæfarenda í hafinu í kringum Ísland. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir stofnunina lánsama að vera afar vel tækjum búin. Varðskipin Þór og Freyja séu bæði feikilega öflug og hafi reynst sérlega vel við íslenskar aðstæður. Á hafsvæðinu umhverfis landið sé mikil skipaumferð og sú þróun hafi orðið á undanförnum árum að skipin verði sífellt stærri auk þess sem komur skemmtiferðaskipa hingað til landsins verði æ algengari. Hafnarkomur skemmtiferðaskipa í fyrra voru 1.164.
Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar miðast við að geta brugðist við því óvænta sem gerist innan íslenska leitar- og björgunarsvæðisins sem er um 1,9 milljónir ferkílómetrar að stærð. Vöktunin þarf að vera öflug en hún fer fram í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Þá er grundvallaratriði að hafa yfir öflugum varðskipaflota að ráða svo unnt sé að grípa inn í alvarlegar aðstæður sem kunna að henda þessi skip. Við útboð beggja varðskipa var meðal annars horft til dráttargetu skipanna en miðað við þróun á skipastærð og fjölda hafnarkoma á liðnum árum þurfa varðskip þjóðarinnar að vera þannig búin að þau geti dregið stór og mikil skip sem lenda í neyð hér við land. Fyrirkomulag á siglingu varðskipanna er með þeim hætti að ávallt er eitt skip á sjó hverju sinni í þrjár vikur í senn. 75 daga ársins 2025 verðum við með tvö skip til taks og samtals eru áætlaðir 386 úthaldsdagar í ár,“ segir Georg.
Endurnýjun þyrluflotans
Fyrir sex árum hófst endurnýjun þyrluflotans þegar Super Puma þyrlur af nýrri tegund en þær sem fyrir voru bættust við flugflotann. Þyrlurnar eru af gerðinni Airbus H225 og hafa reynst vel. Landhelgisgæslan er með þyrlurnar TF-EIR, TF-GRO og TF-GNA í rekstri. „Síðast en ekki síst ber að nefna eftirlitsflugvélina TF-SIF sem er ein okkar allra mikilvægasta björgunareining, sér í lagi þegar kemur að verkefnum sem kunna að koma upp fjær landi. Þá gegnir eftirlitsflugvélin sérlega þýðingarmiklu hlutverki þegar kemur að eftirliti innan efnahagslögsögunnar. Þrátt fyrir fjareftirlitskerfi og gervitunglamyndir, kemur ekkert í stað þess að fljúga yfir lögsöguna til að sem skýrust stöðumynd fáist,“ segir Georg.
Verkefnum fjölgar stöðugt
Hann segir verkefnum þyrlusveitar og stjórnstöðvar fjölga ár frá ári. Sem dæmi um það megi nefna að í fyrra voru þyrluútköll alls 334. Um fimmtungur útkallanna var vegna atvika á sjó en flest þeirra voru á landi. Útköllum vegna sjúkraflutninga hafi fjölgað mikið og það haldist í hendur við þann fjölda sem dvelur á Íslandi hverju sinni.
„Fyrirkomulag þyrlusveitar innar er með þeim hætti að áhafnirnar ganga bakvaktir og við kappkostum að hafa tvær þyrlur og tvær áhafnir til taks stærstan hluta ársins. Ef Landhelgisgæslan annast þyrluútköll langt út á haf, þarf önnur þyrla að vera til taks öryggisins vegna.“
Siglingaöryggis- og sjómælingadeild Landhelgisgæslunnar vinnur að því allt árið að bæta öryggi sjófarenda með því að kortleggja hafsvæðið hér við land. Áhöfnin á sjómælingaskipinu Baldri annast mælingar að sumarlagi og gögnin eru svo nýtt til að útbúa ný og nákvæm sjókort. Þessi vinna er ómetanleg og er unnin í þeim tilgangi að auka öryggi sjófarenda.
Öryggisgæsla á hafinu
Landhelgisgæsla Íslands sinnir öryggisgæslu og björgun á hafi úti, fer með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum eins og segir í lögum um Landhelgisgæsluna. „Þessi verkefni eru allnokkur og ansi fjölbreytt. Fyrst má nefna öryggisgæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og löggæslu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og einnig aðstoð við löggæslu í landi. Landhelgisgæslan annast einnig leitar- og björgunarþjónustu við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó og einnig loftför. Þá sinnir Gæslan leit og björgun á landi, aðkallandi sjúkraflutningum, aðstoð við almannavarnir og sprengjueyðingu. Þá sinnum við reglulega útköllum og veitum aðstoð þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna snjóalaga eða náttúruhamfara. Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er tekið við tilkynningum frá skipum og þar fer einnig fram eftirlit með lögsögumörkum á hafinu. Síðast en ekki síst sinnir Landhelgisgæslan sjómælingum, sjókortagerð, gefum út tilkynningar til sjófarenda, sjávarfallatöflur og önnur rit sem ætlað er að auka öryggi þeirra sem sækja sjóinn. Frá árinu 2011 hefur Landhelgisgæslan annast framkvæmd varnartengdra verkefna, aðallega á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og á fjarskipta- og ratsjárstöðvum, í umboði utanríkisráðuneytisins og umsvif þeirrar starfsemi verður sífellt meiri vegna þeirrar heimsmyndar sem við búum við.“
Aukin viðvera TF-SIF
„Áætlanir Landhelgisgæslunnar gerðu ráð fyrir að flugvélin TF-SIF myndi annast eftirlit á vegum Frontex í um 5-6 mánuði á árinu 2025. Í haust kom í ljós að Frontex óskaði ekki eftir framlagi Landhelgisgæslunnar í ár en að endingu varð úr að áhöfnin á TF-SIF kemur til með að annast landamæraeftirlit í tvö skipti, í mánuð í senn á næsta ári. Þessi breytta staða kemur niður á þeim sértekjum sem við gerðum ráð fyrir að afla á árinu en að sama skapi skapast tækifæri til að efla löggæslu og eftirlit innan lögsögunnar. Ef áætlanir ganga eftir stefnir í að eftirlitsgetan verði með besta móti á árinu því vélin verður til taks hér á landi í 10 mánuði. Landhelgisgæslan hefur lengi talað fyrir því að nauðsynlegt sé að auka viðveru flugvélarinnar hér á landi svo unnt sé að hafa nægjanlega yfirsýn yfir efnahagslögsöguna. Flugtímaáætlun ársins gerir ráð fyrir að vélin sinni eftirliti í 455 stundir við Ísland og fljúgi 210 flugstundir á vegum Frontex, alls 665 flugstundir. Flugstundir hér á landi á árinu verða því óvenju margar. Eins og ég minntist á í upphafi býr Landhelgisgæslan yfir öflugum tækjakosti og fylgifiskur slíks búnaðar er að þau eru bæði dýr í rekstri og þeim fylgja kostnaðarsamar endurbætur. Við höfum lengi talað fyrir því að auka þurfi fyrirsjáanleika endurbóta þessa flókna og dýra tækjabúnaðar enda höfum við þurft að bregðast við óvæntum og kostnaðarsömum uppfærslum sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í áætlunum. Í þessum tækjum er flókinn tæknibúnaður sem þarf að uppfæra fyrir háar fjárhæðir og það getur reynst skammgóður vermir að láta slíkar uppfærslur sitja á hakanum og þurfa þess í stað að bregðast við óvæntum bilunum sem geta haft áhrif á björgunargetu þjóðarinnar.“
Georg segir að brýnasta þörfin með tilliti til úrbóta á björgunargetu Landhelgisgæslunnar hafi verið aukin viðvera eftirlitsflugvélarinnar TF-SIFJAR hér á landi svo unnt sé að halda uppi viðunandi eftirliti í lögsögunni. „Nú horfir til betri vegar í þeim efnum og við bindum miklar vonir við að geta haldið uppi góðu eftirliti á svæðinu kring um Ísland á þessu ári.“