Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda hófst í dag þegar Arthur Bogason formaður sambandsins setti fundinn. Honum lýkur svo á morgun með og lýkur á morgun með kjöri stjórnar og formanns. Í skýrslu Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra var strandveiðivertíðinni 2023 gerð skil og í máli hans kom fram að nokkur met hefðu verið slegin að þessu sinni.
Aflaverðmæti í strandveiðum 4,6 milljarðar
Heildarafli strandveiðivertíðarinnar var 11.359 tonn sem dreifðist á 51 löndunarstað. Mestu var landað á Patreksfirði, Bolungarvík, Sandgerði og Ólafsvík. Rif og Arnarstapi komu þar skammt á eftir. Alls tóku 750 bátar þátt í veiðunum og hafa ekki verið fleiri frá árinu 2012.
„Afli á hvern bát var minni en verið hefur, eða 13,3 tonn á þessu ári og þarf að leita allt aftur til ársins 2016 til að finna minna afla á hvern bát, 12,9 tonn. Hlutfall þorsks hefur aldrei verið meiri í hverjum róðri hjá strandveiðibátum sem segir allt sem segja þarf um hve mikið er af fisk í sjónum. 668 kíló af þorski voru að meðaltali í róðri,” sagði Örn.
Fiskverð á strandveiðitímabilinu hækkað um 6,7% milli ára. Aflaverðmæti á strandveiðum var 4,6 milljarðar króna, eða að meðaltali 6,6 milljónir króna á hvern bát sem er 7% lækkun á milli ára. Heildaraflinn á vertíðinni var 11.359 tonn og þar af 9.953 tonn þorskur, eða 87,6% heildaraflans.
Miklar verðsveiflur á grásleppu
Aflahæstur krókaaflamarksbáta á síðasta fiskveiðiári var Hafrafell SU með 2.509 tonn. Örn fjallaði einnig um liðna grásleppuvertíð þar sem leyfilegur heildarafli var lækkaður úr tæpum 7 þúsund tonnum í 4.411 tonn. Gefnir voru út 45 veiðidagar en þrátt fyrir það náðist ekki kvótinn. Aflinn varð um 3.800 tonn sem var um 12% minnkun milli ára.
„Verð á fiskmörkuðum fyrir kílóið af heilli grásleppu hækkaði um 75% frá árinu 2021 en þá var verðið það lægsta yfir tíu ára tímabil. Margir segja að erfitt sé að eiga við þetta vegna þess að verðsveiflurnar séu það miklar að það sé ekki hægt að byggja neitt markaðsstarf á þeim. Frá árinu 2019 til 2021 lækkaði verðið um 54% en hækkar svo um 75% frá 2021 til 2022.“
Aflahæsti báturinn á grásleppu, Fjóla SH, með 70 tonn.
Heildarafli smábáta á árinu var nánast sá sami og á fiskveiðiárinu 2021/2022, eða um 78 þúsund tonn. Aflaverðmætin námu 31,2 milljarðar, jukust á milli ára um 1,8 milljarða milli ára. Áætla má að útflutningsverðmætin nemi nálægt 60 milljörðum króna.
Aðeins 55 bátar stunduðu veiðar samkvæmt línuívilnun og hefur þeim farið ört fækkandi.
„Við reiknum samt með því að ef fallist verði á okkar tillögur um að tekið verði úr byggðakvótum og sett í línuívilnun og hún styrkt og prósentan hækkuð munum við sjá fleiri báta fara á línuívilnum. Það er algjör forsenda fyrir rekstri margra þessara báta að línuívilnun haldi velli,“ sagði Örn.