Fimm skipverjar á frystitogaranum Blængi NK hafa síðustu daga verið á námskeiði í meðferð og viðhaldi veiðarfæra hjá Hampiðjunni í Neskaupstað. Skipverjarnir eru Óðinn Freyr Björnsson, Mikael Atli Óskarsson, Sigurður Orri Sigurðsson, Ástþór Atli Einarsson og Hjörleifur Níels Gunnarsson.

Helsti leiðbeinandi á námskeiðinu var Hugi Árbjörnsson netagerðarmeistari. Í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar sagði hann að námskeiðið gengi afar vel enda nemendurnir mjög áhugasamir og móttækilegir.

Hugi Árbjörnsson netagerðarmeistari var helsti leiðbeinandinn á námskeiðinu. Mynd/Hákon Ernuson
Hugi Árbjörnsson netagerðarmeistari var helsti leiðbeinandinn á námskeiðinu. Mynd/Hákon Ernuson

„Það er í reynd farið yfir alla þætti sem menn þurfa að sinna um borð í togara eins og Blængi. Það skiptir nefnilega miklu að sem flestir í áhöfn svona skips geti bjargað málum þegar vandi kemur upp varðandi veiðarfærin. Þetta er þriggja daga námskeið og stefnt er að því að strákarnir verði hæfir til þess. Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir splæsningu á vír, splæsningu á tógi – bæði fléttuðu og snúnu, unnið með hnúta, bætingu og stykkjun á neti og mælingar á neti. Þetta er býsna fjölbreytt en ég hef trú á því að námskeiðið geri menn að betri og hæfari sjómönnum. Við hér hjá Hampiðjunni höfum áður fengið menn af Gullver NS og Ljósafelli SU á svona námskeið og það gekk mjög vel,” sagði Hugi.

Í samtölum við Blængsmennina á námskeiðinu kom fram að þeir voru mjög ánægðir með það sem þeim hafði verið kennt á því. Þeir töldu sig hafa afar gott af fræðslunni og hrósuðu bæði leiðbeinendum og þeirri aðstöðu sem boðið var upp á hjá Hampiðjunni. Þeir voru á einu máli um að svona námskeið gerði þá að betri sjómönnum og að því loknu gætu þeir innt af hendi mun fleiri verkefni en áður.