Barði NK hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni á föstudaginn. Heimasíðan Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Þorkels Péturssonar skipstjóra í morgun og spurði hann hvernig gengi.

„Við erum að veiðum hérna fyrir norðaustan eyjarnar og það hefur bara gengið þokkalega. Nú erum við á þriðja holi, en við fengum 420 tonn í fyrsta holinu eftir átta tíma og síðan 150 tonn í öðru holinu eftir sex. Þetta lítur ágætlega út. Það er töluvert að sjá en hann virðist skila sér frekar illa í birtunni. Það fer síðan að ganga betur þegar líður á daginn. Það er hið þokkalegasta veður eins og er þannig að það er bara bjart yfir okkur hér um borð,” segir Þorkell.

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað tók á móti 5.000 tonnum af kolmunna til vinnslu í októbermánuði en það voru Barði NK og Beitir NK sem fluttu þann afla að landi.