Í septemberlok höfðu íslensk síldveiðiskip veitt 95% afla síns af norsk-íslenskri síld í íslenskri lögsögu, samkvæmt tölum Fiskistofu. Til samanburðar má nefna að í fyrra og hittifyrra var hlutfallið 59% bæði árin.
Veiðar á norsk-íslenskri síld héldu áfram að nokkrum krafti í nýliðnum septembermánuði. Alls var landað 32.000 tonnum og var heildaraflinn í septemberlok 218.000 tonn.
Með síldinni fékkst 4.140 tonna makrílafli og kolmunnaaflinn var 1.527 tonn.
Heildarmakrílafli í septemberlok var kominn upp í 115.500 tonn en á sama tíma í fyrra var hann 112.400 tonn.
Á vef Fiskistofu er að finna tölur um afla íslenskra skipa af úthafstegundum. Sjá HÉR