Á fyrstu 5 mánuðum ársins varð 9% samdráttur í sölu á ferskum þorski miðað við sama tímabil 2013. Samhliða lækkaði meðalverð um 6% miðað við verðmæti hvers árs í krónum. Heildarútflutningur á ferskum þorski skilaði alls 8,5 milljarði á tímabilinu.
Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda .
Franski markaðurinn er stærstur, en þangað fór um þriðjungur þess sem flutt var út af ferskum þorski á tímabilinu janúar - maí. Hlutur Frakka hefur þó minnkað verulega milli ára en hann var 43% í fyrra. Aukning hefur orðið til Bandaríkjanna og fleiri landa.
Ýsuverð óbreytt
Á vef LS segir ennfremur að svo virðist sem Frakkar séu ekki lengur samkeppnishæfir um verð á ferskri ýsu. Útflutningur þangað á fyrstu fimm mánuðum ársins var aðeins helmingur þess sem hann var í fyrra. Í stað þeirra hefur aukning orðið á útflutningi til Belgíu, Kanada og Sviss.
Á tímabilinu janúar - maí nam útflutningur ferskrar ýsu alls 2,2 milljörðum sem er 7% lægra en í fyrra, meðalverð hefur ekki breyst milli ára.