Beitir NK kom með 2.600 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar á föstudag. Hann hélt á ný til veiða strax að löndun lokinni en veiðisvæðið er vestur af Írlandi, um 850 mílur frá Neskaupstað.
Í kjölfar Beitis komu Vilhelm Þorsteinsson EA með 3.100 tonn og Börkur NK með 3.200 tonn. Löndun úr Vilhelm lauk í nótt en löndun úr Berki hefst í kvöld.
Þrjú norsk skip eru síðan á leið til Síldarvinnslunnar með kolmunnafarma, samtals rúm 5.000 tonn og er hið fyrsta þeirra væntanlegt til Neskaupstaðar á miðvikudagskvöld.
Að sögn Hafþórs Eiríkssonar, verksmiðjustjóra í Neskaupstað, er kolmunninn sem nú veiðist hið ágætasta hráefni.
„Hann skilar góðum afurðum, úrvalsmjöli og töluverðu lýsi,” sagði Hafþór í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar. Skipað verður út 2.200 tonnum af mjöli í Neskaupstað síðar í þessari viku.