Fiskeldi heldur áfram að sækja í sig veðrið og skiluðu eldisafurðir rúmlega 8 milljörðum króna í útflutningstekjur í janúar. Mánuðurinn er því sá næststærsti í útfluttum eldisafurðum frá upphafi. Miðað við janúar í fyrra er aukningin um 22% í krónum talið en rúm 24% á föstu gengi. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í janúar sem Hagstofan birti í síðustu viku. Ekki eru birtar tölur fyrir hverja tegund en þær koma í lok mánaðar. Sagt er frá þessu í fréttabréfi SFS.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141305.width-800.png)
Vægi eldisafurða í útflutningi eykst
Verðmæti vöruútflutnings í heild jókst einnig nokkuð myndarlega á milli ára í janúar, eða sem nemur um 21% á föstu gengi. Hlutdeild fiskeldis í verðmæti vöruútflutnings fór því úr 8,3% í 8,6% milli ára í janúar, enda er aukning fiskeldis umfram aðra liði vöruútflutnings. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var svo til óbreytt á milli ára í janúar. Vægi eldisafurða í útflutningsverðmæti sjávarafurða nam því tæplega 28% en það hefur aldrei verið hærra í einum mánuði. Á myndinni hér að neðan má sjá útflutningsverðmæti eldisafurða í janúar og vægi þess miðað við verðmæti útfluttra sjávarafurða og vöruútflutnings alls.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141306.width-800.png)