ff

Sjávarútvegsráðuneyti Galasíu á Spáni hefur ráðstafað 51 milljón evra (um 7,6 milljörðum ISK) á þessu ári í styrki til framleiðslu og markaðssetningar á sjávarafurðum og afurðum úr fiskeldi.

Um 19 milljónum evra var úthlutað í maí og tók Fiskveiðisjóður Evrópu þátt í fjármögnun styrkjanna með ráðuneytinu. Þá var 32 milljónum evra til viðbótar veitt í styrki og var það gert til að víkka út hóp þeirra fyrirtækja sem aðstoðar njóta.

Styrkirnir fara einkum til þeirra sem eru að nútímavæða reksturinn og innleiða nýja tækni. Einnig til þeirra sem beita sér fyrir nýsköpun í sjávarútvegi.

Sjávarútvegur er aðalatvinnugreinin í Galasíu. Um 38 þúsund manns starfa við greinina. Galasía skilar um 52% af heildartekjum Spánverja af fiskveiðum og um 10% af fiskveiðum ESB-ríkja.

Sé litið til framleiðsluverðmætis sjávarafurða og fiskeldis þá er Galasía með 15% af heildarverðmætum í ESB. Verðmæti sjávarafurða í Galasíu er meira en það sem framleitt er í Þýskalandi, Belgíu, Finnlandi, Grikklandi og Svíþjóð til samans.