Verið er að landa kolmunna úr fjórum skipum í Neskaupstað. Fyrstur kom Barði NK með 1.560 tonn, síðan Beitir NK með 1.530 tonn, þá Börkur NK með 2.310 tonn og loks Vilhelm Þorsteinsson EA með 2.100 tonn. Skipin komu til löndunar vegna veðurs en veiðin fór fram í færeyskri lögsögu. Þegar Barði kom til hafnar sló heimasíða Síldarvinnslunnar á þráðinn til Theodórs Haraldssonar skipstjóra og spurði fyrst hve túrinn hefði verið langur.
„Hann var tíu sólarhringar höfn í höfn. Í reyndinni var þetta heldur tíðindalítill túr. Við hófum veiðar í Ræsinu suðvestur af Færeyjum og það gekk bara vel í fyrstu. Í fyrstu fengum við tvö 350 tonna hol og það var ekki lengi dregið eða í ellefu tíma. Síðan hægðist verulega á veiðinni þarna og þá hófst leit. Kastað var austan við eyjarnar en þar var ekki jafn góð veiði. Við vorum að fá 200-250 tonn í holi og það var dregið í eina tuttugu tíma í hvert sinn. Staðreyndin er sú að þetta virðist byrja svipað og í fyrra. Þá hófst veiðin heldur rólega en hún jókst þegar leið á janúarmánuð og var mjög góð út allan mánuðinn. Nú gerum við ráð fyrir að taka þátt í loðnuleit. Mælirinn í skipinu var kvarðaður í gær og þá erum við klárir. Það þarf að stilla alla dýptarmæla í leitarskipunum eins til þess að mælingar séu marktækar. Nú eru þrjú skip klár til leitar fyrir utan okkur. Það er hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson og veiðiskipin Polar Ammassak og Heimaey VE,” sagði Theodór.
Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir að hráefnið úr kolmunnaskipunum sé ágætt. „Vinnsla hófst strax og hráefni barst og hún gengur vel. Auk vinnslunnar er verið að skipa út 2.100 tonnum af mjöli þannig að það er nóg um að vera hjá okkur,” sagði Hafþór.