Skráðir þátttakendur á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 sem haldin var í Reykjavík í síðustu viku voru um 750 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Mestur fjöldi þátttakenda í ráðstefnusölum var um 550 manns, en margir sóttu aðeins hluta ráðstefnunnar. Rúmlega þrjú hundruð manna fundarsalir voru þétt setnir í nokkrum málstofum. Það sem fram fer utan ráðstefnusala er einnig mikilvægt, en Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni.
Í frétt á vef ráðstefnunnar segir að nú séu að verða ákveðin þáttaskili hjá Sjávarútvegsráðstefnunni. Fram að þessu hafi reksturinn verið í járnum sem hafi takmarkað umfang starfsemi félagsins. Skráðum þátttakendum hefur fjölgað úr rúmlega 300 manns árið 2010 upp í um 750 manns á þessu ári. Á sama tíma hefur ráðstefnugjaldið hækkað úr 9.000 krónum upp í 15.000 kr. Með auknum fjölda ráðstefnugesta og hærra ráðstefnugjaldi aukast tekjur og við það skapast ný tækifæri til sóknar, segir í fréttinni.
Á síðustu árum hefur framlag styrktaraðila verið drifkrafturinn við uppbyggingu á Sjávarútvegsráðstefnunni og fyrirlesarar og stjórn félagsins hafa gefið sitt framlag.
Á vef ráðstefnunnar má nálgast glærur fyrirlesaranna.