Nú eru rúm fjögur ár liðin frá því að Ísbjörninn á Norðurgarði, frystigeymsla HB Granda, tók til starfa en á þeim tíma hafa rúmlega 72.100 tonn af frystum sjávarafurðum verið vistaðar í Ísbirninum í lengri eða skemmri tíma.

Á vef HB Granda kemur fram að frystigeymslan við húsnæði félagsins á Norðurgarði hafi verið vígð á sjómannadaginn árið 2013. Ísbjörninn, sem alls er 3.800 fermetrar að stærð og getur rúmað allt að 6.000 tonn af frystum afurðum í einu, dregur nafn sitt af samnefndu fyrirtæki, sem er eitt þeirra sem nú mynda HB Granda. Nafnið var valið eftir samkeppni meðal starfsmanna félagsins. Á vefnum kemur einnig fram að Ísbjörninn hafi bætt úr brýnni þörf fyrir frystirými og með byggingu geymslunnar hafi staða gömlu hafnarinnar í Reykjavík styrkst sem fiski- og fiskvinnsluhöfn.

Áður en Ísbjörninn tók til starfa má segja að HB Grandi hafi verið á hrakhólum með geymslurými fyrir frystar sjávarafurðir. Frystigeymslur félagsins á Norðurgarði réðu ekkert við magnið og  var því brugðið á það ráð að leigja geymslurými í frystigeymslum í Sundahöfn og frystigeymslunni Kuldabola í Þorlákshöfn auk þess að fjöldi frystigáma á Norðurgarði var nýttur undir afurðirnar. Tilkoma Ísbjarnarins gjörbreytti stöðunni til hins betra og að auki dró verulega úr umferð flutningabíla, og þ.a.l. úr loftmengun, á Grandanum, Mýrargötu og Sæbraut.

Samkvæmt yfirliti frá HB Granda fór mest magn um Ísbjörninn á fyrsta hálfa starfsárinu eða alls 16.602 tonn frá því í júní til áramóta. Á árinu 2014 var magnið 16.011 tonn. Það dróst svo saman á árinu 2015 er 13.711 tonn fóru um Ísbjörninn. Í fyrra var magnið 15.930 tonn og það sem af er þessu ári eða fram til 22. september sl. höfðu alls 9.878 tonn af frystum sjávarafurðum farið  um Ísbjörninn.