Í skoðanakönnun sem MMR gerði fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna kemur í ljós að mikill meirihluti telur stjórnkerfi fiskveiða vera betra hér á landi en í öðrum löndum. 71,7% þeirra sem tóku afstöðu telja að stjórnkerfi fiskveiða sé heldur- eða mun betra en í öðrum löndum. 11,2% telja kerfið alveg eins en 17,1% telja stjórnkerfi fiskveiða hér á landi verra en í öðrum löndum.
LÍÚ lét einnig kanna hug fólks til mikilvægis íslensks sjávarútvegs. Niðurstöðurnar voru afgerandi en 96,9% telja íslenskan sjávarútveg annað hvort mjög- eða einstaklega mikilvægan fyrir Ísland.
Í frétt á vef LÍÚ segir að óhætt sé að segja að niðurstöður könnunarinnar veki athygli, ekki síst í ljósi þess að nú freisti stjórnvöld þess að breyta veigamiklum þáttum aflamarkskerfisins.
Könnunin var gerð dagana 9.-13. nóvember síðastliðinn meðal Íslendinga á aldrinum 18-67 ára og svöruðu 879 manns.