Samkvæmt mælingum Hafrannsóknarstofnunar sem voru gerðar fyrr í dag eru nú um 70 þúsund tonn af síld innan brúar í Kolgrafarfirði.
Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Þar er vakin athygli á því að íslenski síldarstofninn sé þjóðinni afar verðmætur og skili þjóðarbúinu að líkindum um 12 milljörðum króna í útflutningstekjur í ár.
Áætlað var að um 320.000 tonn af síld hafi verið í Breiðafirði síðastliðinn vetur af rúmlega 500.000 tonna stofni. Síldardauðinn sl. vetur var metinn um 52 þúsund tonn eða um 10% stofnsins. Lauslega áætlað var talið að það magn síldar sem drapst síðastliðinn vetur hefði getað skilað 6-7 milljörðum króna í útflutningsverðmæti, að því er fram kom í Fiskifréttum á þeim tíma.
Sjá nánar greinargerð um aðgerðir nú gegn síldardauða á vef ráðuneytisins .