Sjávarútvegsráðuneytið hefur bætt sjö þúsund tonnum við áður útgefinn kvóta 40.000 tonna kvóta úr íslenska sumargotssíldarstofninum. Veiðar á þessari viðbótarúthlutun skulu skipulagðar í samvinnu við Hafrannsóknastofnun í því skyni að kanna með sýnatökum ástand síldarstofnsins.

Með ákvörðuðum heildarafla upp á 47.000 tonn verður veiðin á yfirstandandi fiskveiðiári u.þ.b.  35% af meðaltali afla fiskveiðiáranna 2005/2006 – 2007/2008, eða vertíðarnar áður en sýkingar varð vart í stofninum.

Í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu er vakin athygli á þeirri ákvörðun frá því í haust að skylt er að færa í land allan afskurð sem fellur til við vinnslu síldarinnar um borð í fullvinnsluskipum. Jafnframt var afturkölluð heimild til að sleppa niður lifandi síld í nót.