Útgerðarfélagið Borgarhöfði ehf. í Grímsey hefur selt allan kvóta sinn, um 700 þorskígildistonn í krókaaflamarkskerfinu, og annan af tveimur bátum, til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Báturinn sem seldur var hét Gyða Jónsdóttir EA en heitir nú Hafrafell SU.

Jóhannes Henningsson útgerðarmaður segir að reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi við viðskiptabanka félagsins um niðurfellingar á gengistryggðum lánum en þegar ljóst var að ekki næðust samningar voru rekstrarforsendur brostnar og við þau skilyrði gat rekstur ekki haldið áfram í óbreyttri mynd.

Á vef Fiskstofu má sjá að úthlutaður kvóti til skipa með heimahöfn í Grímsey í upphafi yfirstandandi fiskveiðiársins nam 2.898 þorskígildistonnum, þar af 1.445 tonn í aflamarkskerfinu og 1.453 tonn í krókaaflamarkskerfinu.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.