Alls hafa útgerðir 70 smábáta tilkynnt Landssambandi smábátaeigenda (LS) að þeir stefni að makrílveiðum næsta sumar. Það eru ríflega fjórum sinnum fleiri en veiðarnar stunduðu á síðustu vertíð, en þá veiddu 17 bátar makríl á handfæri og nam aflinn samtals 1.100 tonnum.

LS hefur hvatt félagsmenn sína til að láta vita um áform sín og þetta eru viðbrögðin.

Á aðalfundi LS á dögunum var ákveðið að setja fót nefnd til að fjalla um málefni makrílveiðimanna og eiga viðræður við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um veiðarnar 2013.

Aðalfundur LS ályktaði að makrílpottur fyrir smábáta þ.e. báta undir 15 BT yrði aukinn í 18% af heildarmakrílaflanum, þ.e. að lágmarki 20.000 tonn, svipað og þekktist t.d. í Noregi.