Dreifing makríls um Norðaustur-Atlantshaf er meiri nú en áður og makríllinn teygir sig lengra til vesturs en áður hefur sést. Þetta kemur fram í skýrslu um sameiginlegan leiðangur Íslendinga, Færeyinga og Norðmanna vegna vistfræðirannsókna í kringum Ísland, Færeyjar og í Norskahafinu í júlí-ágúst 2010.

Magn makríls metið með upplýsingum um afla, stærð trolls, togtíma og stærð svæðis (svokölluð “swept area” aðferð) gefur vísbendingu um að 4-5 milljónir tonna makríls voru á rannsóknasvæðinu, þar af um 650 þús. tonn á svæðinu sem Árni Friðriksson fór um innan íslensku landhelginnar. Skekkjan á þessu mati er hins vegar ekki vel þekkt.

Norsk-íslenska síld var að finna í minna magni nú en árið á undan og var dreifing hennar einnig nokkuð frábrugðin fyrri árum. Þannig var lítið af síld um miðbik svæðisins og eins fyrir suðaustan land, en mesta magnið á norðvestanverðu, norðanverðu og norðaustanverðu könnunarsvæðinu.

Rannsóknaleiðangurinn stóð yfir á tímabilinu 9. júlí til 20. ágúst sl. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson tók þátt í leiðangrinum ásamt einu skipi frá Færeyjum og tveimur frá Noregi. Markmiðið var að rannsaka vistfræði, umhverfi og kortleggja útbreiðslu og magnmæla makríl, síld og kolmunna í kringum Ísland, Færeyjar og í Noregshafi austur af Íslandi allt að ströndum Noregs.

Er þetta í annað sinn sem Íslendingar og Færeyingar taka þátt í þessum leiðangri en Norðmenn hafa stundað viðlíka rannsóknir frá árinu 2004 þótt könnunarsvæðið áður fyrr hafi verið takmarkað við Norskahafið djúpt austur af Íslandi.

Sameiginleg skýrsla um niðurstöður leiðangursins var nú í lok ágúst lögð fyrir vinnuhóp innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem vinnur að mati á stærð þessara fiskistofna. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar, HÉR. Þar má sjá kort yfir rannsóknasvæðin.