Í Svíþjóð var 63 ára gömlum manni neitað um leyfi til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni meðal annars á grundvelli þess að slíkt stuðlaði að því að meðalaldur fiskimanna hækkaði sem væri ekki æskilegt.

Maðurinn, sem býr í Kalix sveitarfélaginu í norðausturhluta Svíþjóðar, sótti um fiskveiðileyfið árið 2009 og átti það að gilda fyrir árið 2010. Í skriflegu svari frá lénsstjórninni er meðal annars bent á að árið eftir yrði maðurinn 64 ára og það fæli í sér að fiskmannastéttin myndi eldast í stað þess að yngjast eins og stefna lénsstjórnarinnar væri. Beiðni mannsins er einnig hafnað þar sem ekki þótti sýnt að fiskveiðar yrðu aðalatvinnugrein hans.

Maðurinn telur á sér brotið og að honum hafi verið mismunað vegna aldurs. Í Svíþjóð er sérstakur umboðmaður fyrir þennan málaflokk og hefur maðurinn leitað til hans. Umboðsmaðurinn telur að málið sé fyrnt. Málið vekur mikla athygli fjölmiðla í Svíþjóð þessa dagana.