Vertíðin hjá sjóstangveiðifyrirtækinu Iceland Profishing sem gerir út frá Flateyri og Suðureyri hófst í síðasta mánuði. Vertíðin fór rólega af stað vegna ótíðar en í dag er búið að sjósetja alla bátana sem verða í notkun í sumar. Þetta kemur fram á vefnum www.bb.is.

Þar segir að fjöldi gesta sé svipaður og í fyrra en dreifist betur á tímabilið þ.e.a.s. þeir koma fyrr en venjulega og fara um miðjan september.


Núna eru þrettán hópar við veiðarnar á Suðureyri og Flateyri.

Róbert Schmidt leiðsögumaður segir að vart hafi orðið við stórþorska. Þeir stærstu hafi vegið 22,9 kg og voru 135 sm á lengd. Þá hafi steinbítsveiðin einnig verið góð. Einn hópurinn náði um 60 steinbítum á einum og hálfum tíma sem þykir góð veiði.

Fyrstu viku í júní verður hin árlega keppnisvika hjá IPF en þá koma sömu hóparnir ár eftir ár og veiða í vikutíma. Þá veiðast stórir fiskar. Í keppninni í fyrra veiddist 90 kg stórlúða sem mældist 2 metrar að lengd. Þyngstu þorskarnir í keppninni þá voru um 27 kg.