Norskir laxaútflytjendur höfðu spáð því að útflutningur á norskum eldislaxi til Kína myndi aukast um 30-40% á árinu 2011. Það fór hins vegar svo að laxasalan minnkaði um 65%. Ástæðan er tæknilegar hindranir sem kínversk stjórnvöld hafa sett gagnvart innflutningi á laxi frá Noregi. Þessar aðgerðir eru raktar til reiði kínverskra stjórnvalda í garð Norðmanna vegna þess að kínverskum andófsmanni voru veitt friðarverðlaun Nóbels.
Á árinu 2010 seldu Norðmenn Kínverjum ferskan lax fyrir tæplega 9 milljarða íslenskra króna eða sem svarar 86% af heildarinnflutningnum. Í fyrra hrapaði salan niður í rúma 3 milljarða og markaðshlutdeild Norðmanna féll niður í 28%. Þrátt fyrir þetta varð heildarinnflutningur á ferskum laxi til Kína heldur meiri en árið áður og fylltu aðrar þjóðir, aðallega Bretar en einnig Færeyingar, Kanadamenn og Ástralir, upp í skarðið.
Á sama tíma og þetta gerist hefur sala frá Noregi á hvítfiski og makríl til Kína aukist en þessar tegundir fara í framhaldsvinnslu þar í landi og eru hvítfiskafurðirnar síðan seldar til Evrópu og makrílafurðirnar til Japans.
Frá þessu er skýrt í norska blaðinu Fiskeribladet/Fiskaren. Ekki er getið um heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi til Kína á síðasta ári en fram kemur að á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hafi útflutningurinn numið jafnvirði 9 milljarða íslenskra króna sem er 28% aukning frá sama tímabili í fyrra.