Fiskafli íslenskra skipa í september var rúm 113 þúsund tonn sem er 22% meiri afli en í september 2015. Þar munar mestu um aukinn makrílafla en hann jókst úr 33 þús. tonnum í 53 þús. tonn eða um 60%. Sem kunnugt er var makríllinn seinna á ferðinni í ár en í fyrra hér við land og hélt sig lengur fram á haustið í lögsögunni.
Botnfiskafli í september var rúm 35.700 tonn og dróst saman um 2%, þar af nam þorskaflinn 22 þúsund tonnum sem er 3% minna en í september 2015. Uppsjávarafli nam 74 þúsund tonnum og jókst hann um 38% samanborið við september 2015. Aukningu í uppsjávarafla má fyrst og fremst rekja til aukins makrílafla eins og áður segir.
Á 12 mánaða tímabili frá október 2015 til september 2016 hefur heildarafli dregist saman um 266 þúsund tonn samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Samdráttinn má að mestu rekja til minni loðnuafla. Afli í september metinn á föstu verðlagi var 20,3% minni en í september 2015.
Sjá nánar á vef Hagstofunnar.