Í nýrri skýrslu Evrópuráðsins sem sagt er frá í World Fishing & Aquaculture kemur fram að metið er að bláa hagkerfið hafi staðið undir 4,9 milljónum starfa innan ESB, eða 2,4% af öllum störfum innan aðildarríkja sambandsins.

Hlutur ESB í heimsframleiðslunni 2,1%

Fisksalar standa undir um 12% af allri sölu sjávarafurða innan ESB en það sem upp á vantar er selt í öðrum verslunum og stórverslanakeðjum. Samkvæmt skýrslunni er hlutur ESB í heimsframleiðslu á sjávarafurðum 2,1% sem setur sambandið í sjöunda sæti á lista yfir stærstu framleiðendur heims. Í efstu sætum eru Kína, Indónesía, Indland, Víetnam, Perú og Rússland. Skýrslan sýnir einnig að sjávarafurðaframleiðsla innan ESB hefur verið nokkuð stöðug síðustu áratugi. Árið 2022 lönduðu rúmlega 52.800 evrópsk fiskiskip um 3,9 milljónum tonna af sjávarafla að verðmæti 6,6 milljónir evra, tæplega 950 milljarðar ÍSK. Sama ár nam fiskeldisframleiðsla innan sambandsins 3,9 milljónum tonna að andvirði 4,8 milljarða evra.

Fiskneysla eykst í ESB

Í skýrslunni er farið yfir nokkra utanaðkomandi þætti sem höfðu verulega áhrif á sjávarútveg ESB. Árið 2020 var það Covid-19 heimsfaraldurinn og áhrif hans á eftirspurn og aðfangakeðjur. Innrásarstríð Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hafi síðan leitt til mikillar hækkunar á raforku og eldsneyti en einnig til hækkunar verðbólgu allt það ár. Einnig er bent á að allt frá 2021 hafi dregið úr möguleikum ESB til veiða í lögsögu Bretlands eftir Brexit. Fyrir vikið hafi innflutningur staðið að stórum hluta undir neyslu sjávarafurða innan ESB. Innflutningurinn hafi haft jákvæð áhrif á fiskvinnslu og dreifingu innan sambandsins.

Áætlað er að sjálfbærni ESB á sviði framleiðslu sjávarafurða hafi farið niður í 37,5% árið 2022 sem þýðir að af hverjum 10 kg af fiski sem neytt var innan ESB voru 6 kg innflutt frá löndum utan sambandsins. Árið 2023 vörðu heimili innan ESB 60,2 milljörðum evra, 8.656 milljörðum ÍSK, til kaupa á sjávar- og fiskeldisafurðum sem var 4,5% aukning frá fyrra ári. Meðalneysla þessara afurða er metin hafa verið 23,51 kg á mann árið 2022 sem var 1% samdráttur frá fyrra ári. Hvorki meira né minna en 70% neyslunnar má rekja til innflutnings á villtum fiski.

Reiða sig á innflutning

Samkvæmt skýrslunni hefur sjálfbærni ESB í framleiðslu á sjávarafurðum farið stöðugt lækkandi og var aldrei minni en árið 2022. Þetta skýrist af aukningu í neyslu á sjávar- og fiskeldisafurðum og takmörkuðu framboði innan aðildarríkjanna. Árið 2022 flutti ESB inn 6,1 milljón tonn af sjávar- og fiskeldisafurðum fyrir 31,9 milljarð evra. Þetta var 23% aukning í verðmætum en 3% minnkum í magni frá árinu á undan.

Skýrslan staðfestir að ESB reiðir sig í miklum mæli á innf lutning sjávar- og eldisafurða frá löndum utan sambandsins. Tekin eru dæmi um lax og þorsk frá Noregi og Bretlandi, alaskaufsa frá Kína, rækjur frá Suður- og Mið-Ameríku, sardínur frá Marokkó og smokkfisk og túnfisk frá öðrum löndum.