Í nýrri norskri vísindaskýrslu kemur fram að 61% af grálúðu sem merkt var í Barentshafi á árunum 2005-2008 hafi veiðst á miðunum við Ísland og Færeyjar. Þetta vekur upp þá spurningu hvort grálúðan í Norðaustur-Atlantshafi sé af einum og sama stofninum. Vitað er að hrygningarstöðvar grálúðunnar í Barentshafi eru við Svalbarða en hrygningarstöðvar grálúðunnar við Ísland hafa aldrei fundist.

Guðmundur Þórðarson grálúðusérfræðingur á Hafrannsóknastofnun segir í samtali við Fiskifréttir að lengi hafi ríkt mikil óvissa um nýliðun grálúðu og stofngerð.

„Sú kenning hefur verið sett fram að skil kunni að vera í útbreiðslu grálúðu úti fyrir Norðurlandi  og sú spurning vaknað hvort grálúða við norðan- og austanvert Ísland og á Færeyjamiðum sé af sama stofni  og grálúðan í Barentshafi, en að annar stofn sé við vestanvert Ísland og við Grænland. Þessi rannsókn virðist styðja þetta að einhverju leyti því nánast öll merkin endurheimtust norður og norðaustur af landinu og á Færeyjamiðum en nánast ekkert á hefðbundinni grálúðuslóð á Hampiðjutorginu né við Austur-Grænland,“ segir Guðmundur.

Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.