57 íslenskir sjómenn sem störfuðu hjá íslenskum útgerðum erlendis eru grunaðir um að hafa skotið tekjuskatti undan. Mál sjómannanna eru meira en helmingur rannsakaðra skattalagabrota sem tengjast Panamaskjölunum. Ólafur Hauksson segir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í vikunni hafi fordæmisgildi fyrir ákæruvaldið í slíkum málum.

Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag.

Skattrannsóknarstjóri hefur rannsakað 57 íslenska sjómenn, sem unnu hjá íslenskum útgerðum erlendis, vegna skattalagabrota og hefur embættið nú þegar kært meirihluta þeirra til héraðssaksóknara. Hin meintu brot í málunum snúast um að sjómennirnir, sem meðal annars unnu hjá íslenskum útgerðum í Afríku, hafi ekki greitt skatta af launum sínum á Íslandi þrátt fyrir að hafa verið búsettir hér á landi. Samkvæmt heimildum Fréttatímans geta einstaka mál snúist um skattaundanskot upp á tugi milljóna króna.

Þessi 57 mál sjómannanna eru meirihluti þeirra 108 mála sem tengjast Panamaskjölunum sem embætti skattrannsóknarstjóra hefur tekið til formlegrar rannsóknar vegna mögulegra skattalagabrota. Málin höfðu hins vegar flest verið tekin til rannsóknar áður en embætti skattrannsóknarstjóra keypti gögn um skattaskjólsviðskipti Íslendinga fyrir 37 milljónir króna í fyrra og áður en umfjöllun um Panamaskjölin hófst í vor. 34 mál af þessum 108 voru tekin til rannsóknar vegna upplýsinga í keyptu gögnunum samkvæmt frétt RÚV í vikunni.