Vel gengur hjá iðnaðarmönnunum sem byggja upp á Vinnslustöðvarreitnum. Húsið verður tveggja hæða um 5.600 fermetrar og mun hýsa saltfiskvinnslu á neðri hæð og innvigtun uppsjávarafla á efri hæð.
„Í dag var steyptur annar hluti af þremur í plötunni. Þeir stefna svo á að steypa þriðja partinn í næstu viku.“ segir Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar, í samtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Þá segir hann að byrjað sé á að hækka austurvegginn.
„Þeir stefna á að verða búnir að loka húsinu í lok nóvember. Einnig er byrjað að byggja húsið sem kemur í portinu á milli fiskmjölsverksmiðju og mótorhúss. Þá stefna þeir á að steypa plötuna þar fyrir mánaðarmót. Byggingin hefur gengið mjög vel síðustu misseri og er ótrúlegur hraði á þessu.“ segir Willum.
Á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar má sjá myndband frá framkvæmdunum.