Sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð um 554 þúsund tonna loðnukvóta á yfirstandandi vertíð. Frá honum dragast 7.400 tonn sem handhafar veiðiheimildanna skulu leggja í ýmsa ,,potta“ samkvæmt lögum sem sett voru á síðasta ári.
Sjávarútvegsráðuneytið tekur fram að á síðari stigum vertíðarinnar kunni kvóti íslenskra skipa að aukast meira takist erlendum skipum ekki að fullnýta allar veiðiheimildir sínar.
Ráðuneytið áætlar að útflutningsverðmæti vertíðarinnar geti numið a.m.k. 27-28 milljörðum króna og segir í frétt þess að verðmætaaukningin muni hafa jákvæð áhrif á hagvaxtarhorfur fyrir árið 2012.
Óhætt er að segja að almenn ánægja ríki um þann loðnukvóta sem leyfilegt er að veiða að þessu sinni, ekki síst þar sem fyrri loðnumælingin í ár gaf fyrirheit um ,,aðeins“ 400 þúsund tonna kvóta til handa Íslendingum sem var töluvert minna en spá Hafrannsóknastofnunar frá því í júní í fyrra hljóðaði upp á. Þegar rannsóknaskipið hafði farið yfir loðnusvæðið tvisvar kom í ljós að ráðlagður heildarkvóti á vertíðinni var 765 þúsund tonn samanborið við 732 þús. tonn samkvæmt spánni í fyrra sem byggðist á ungloðnumælingu haustið áður.