Talið er að fiskveiðar í heiminum og afleiddar greinar skapi um 240 milljarða dollara í tekjur á ári. Þessi upphæð svarar til um 28 þúsund milljörðum íslenskra króna, eða tæpum 55 milljörðum króna á viku hverri.
Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu um rannsóknir vísindamanna við Háskólann í Bresku Kolumbíu en niðurstöður hennar voru birtar í Journal of Bioeconomics. Þar segir ennfremur að þetta sé í fyrsta sinn sem heildarmat sé lagt á verðmæti sem fiskveiðar í heiminum skapi. Hingað til hafi aðeins verið lagt mat á aflaverðmæti en það er talið vera um 80 milljarðar USD á ári.
,,Til að meta gildi fiskveiða þarf að taka með í reikninginn bein áhrif veiðanna á efnahagslífið svo sem virðisauka við fiskvinnslu og veitingarekstur svo eitthvað sé nefnt,“ er haft eftir aðstandendum rannsóknarinnar.
Í skýrslunni er einnig lagt mat á verðmætasköpun fiskveiða og afleiddra greina eftir heimsálfum. Sjávarútvegur í Asíu skilar rúmum 55% af heimsveltunni eða um 130 milljörðum USD. Í Norður-Ameríku skapar sjávarútvegurinn 30 milljarða USD.
Heimild: www.fis.com