Fiskaflinn í nýliðnum aprílmánuði nam tæplega 37.000 tonnum samanborið við 80.000 tonn í sama mánuði í fyrra. Samdrátturinn nemur 43.000 tonnum. Þetta stafar nær eingöngu af því að kolmunnakvótinn er nánast enginn í ár en í apríl í fyrra veiddust tæplega 41.000 tonn af kolmunna.

Botnfiskafli dróst saman um tæp 2.800 tonn í apríl og nam 32.000 tonnum. Þar af var þorskaflinn rúm 13.300 tonn, sem er aukning um 455 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 5.300 tonnum sem er um 100 tonnum meiri afli en í apríl 2010. Karfaaflinn dróst saman um rúm 1.600 tonn samanborið við apríl 2010 og nam 4.900 tonnum. Um 4.200 tonn veiddust af ufsa sem er um 700 tonnum meiri afli en í apríl 2010.

Flatfiskaflinn var tæp 1.600 tonn í apríl 2011 og dróst saman um rúm 400 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam tæpum 1.500 tonnum samanborið við rúmlega 900 tonna afla í apríl 2010.

Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands .