Það var mikið um að vera hjá starfsmönnum frystigeymslu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í síðustu viku. Þá var skipað út hvorki meira né minna en 5.000 tonnum af frystum afurðum og fór megnið af þeim um borð í tvö frystiskip. Fyrra skipið var afgreitt frá laugardegi til þriðjudags og tók það 2.600 tonn en hið síðara tók 2.300 tonn og var afgreitt á 12 tímum sl. fimmtudag. Að auki má segja að samfellt sé verið að setja í gáma sem fara um borð í skip í Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði.

„Jú, þetta er býsna mikið en það var mikil þörf á þessum útskipunum því þröngt var orðið í geymslunum sem taka um 20.000 tonn. Útskipunin í seinna skipið, eða það sem afgreitt var á fimmtudaginn, er alger metútskipun. Að skipa út 2.300 tonnum á 12 tímum er í einu orði sagt rosalegt og væri ekki hægt nema vegna þess að við erum með frábæran mannskap sem kann svo sannarlega til verka," segir Stefán Einar Elmarsson, yfirmaður í frystigeymslunum í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

„Staðreynin er sú að hér hefur aldrei farið jafn mikið magn um borð í skip á einum degi. Það sem skipað var út í vikunni var að mestu leyti síld en þó fóru um 200 tonn af makríl og 80 tonn af bolfiski í fyrra skipið og um 240 tonn af makríl í hið síðara. Nú hefur verið skapað dálítið pláss í frystigeymslunum fyrir þá síld sem verið er að framleiða en auðvitað þarf sífellt að vera að rýma til fyrir það sem framleitt er,” segir Stefán Einar.