Það er ekki bara á Íslandi sem mikill áhugi er á nýjum fiskiskipum. Samkvæmt danska vefnum Fiskeritidende komu nálægt 5.000 manns til þess að skoða uppsjávarskipið Ruth í höfninni í Hirtshals um þar síðustu helgi. Skipið er nú farið í sína fyrstu veiðiferð og stefnir á kolmunnamiðin vestan Írlands.
Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum er Ruth í eigu Færeyinga sem búsettir eru í Danmörku og er einn aðaleigenda, Mikkjal Godtfred, skipstjóri. Skipið er 87,8 m langt og 16,6 m breitt og getur borið 3.500 tonna afla. Í fyrsta túrnum eru 12 manns í áhöfn en þegar reynsla er komin á skipið verða aðeins 8 í áhöfn.
Á þessu skemmtilega MYNDBANDI má sjá Ruth á siglingu frá Karstensens skipasmíðastöðinni til heimahafnar í Hirtshals.