Þrjú þúsund tonn af loðnu seldust í skiptum fyrir þorsk á loðnumarkaði Fiskistofu sem efnt var til í skyndi í gær. Í boði voru 14.750 tonn sem ríkið hefur til ráðstöfunar þannig að loðnan gekk ekki öll út.

Þrjú tilboð bárust, öll frá skuttogaranum Ljósafelli SU sem Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði gerir út. Boðið var í þúsund tonn af loðnu í hvert sinn. Í fyrsta tilboði voru boðin 25 tonn af þorski í skiptum, í öðru tilboði 15 tonn en í því síðasta 10 tonn. Öllum tilboðunum var tekið. Alls fengust því 50 tonn af þorski fyrir 3 þúsund tonn af loðnu.

Hoffell SU 80, uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar, var á landleið um miðja vikuna með 670 tonn af loðnu og kvóti skipsins var þá nánast búinn. Nú hafa 3 þúsund tonnin sem fengust á loðnumarkaði Fiskistofu verið flutt á skipið.