Mikil og góð makrílveiði er nú í Steingrímsfirði á Ströndum og hefur fjöldi báta streymt að. Starfmenn Hólmavíkurhafnar hafa varla undan að þjónusta alla þá báta sem vilja landa á Hólmavík, þrátt fyrir að verulega hafi verið bætt í aðföng og mannskap, að því er fram kemur á vef bb.is.

„Hér er allt að gerast. Ég er ekki einu sinni búinn að telja hvað eru margir bátar í höfninni, ég reikna með að undir kvöldið verði komnir 50 bátar. Enn er eitthvað pláss en það er að verða fullt. Menn eru að hlaða bátunum utan á hvern annan. Þetta er bara tímabundið þannig að reynt er að hliðra til en menn þurfa að láta vita af sér þegar þeir ætla að koma í höfn. Ég heyrði talað um að fimmtán bátar væru að koma frá Bolungarvík en það er enginn af þeim búinn að láta vita af sér,“ segir Valgeir Kristjánsson, hafnarvörður í Hólmavík, í samtali á BB.

Mokveiði er á markíl við Hólmavík og veiddust 87 tonn í gær, 70 daginn á undan.