Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2023/2024. Úthlutunin fer fram með sama hætti og áður á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir.
Heildarúthlutun Fiskistofu er að þessu sinni 337.000 þorskígildistonn sem er 16.000 ÞÍG tonnum meira en við úthlutun fyrir fiskveiðiárið 2022/2023 sem var 321.341 ÞÍG tonn.
Úthlutun í þorski er 166.409 ÞÍG tonn (slægður afli) sem er um 2.000 ÞÍG tonnum meira en á síðasta fiskveiðiári. Úthlutun í ýsu er rúm 59.400 ÞÍG tonn sem er tæplega 11.000 ÞÍG tonna hækkun milli ára.
50 stærstu
Fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin fá 91,3% af úthlutuðu aflamarki og hækkar það hlutfall frá í fyrra þegar það nam 90,1%. 5 stærstu útgerðarfyrirtækin fá 35,8% af úthlutuðu aflamarki sem er talsverð hækkun frá í fyrra þegar hlutfallið var 33%.
Brim hf. fær mestu úthlutunina til sinna skipa eða 10,44% af heildinni, næst kemur Ísfélag hf. með 7% en Samherji Ísland ehf., sem var í öðru sæti á síðasta fiskveiðiári, er nú í þriðja sæti með 6,93%. Í næstu sætum koma FISK-Seafood ehf. með 6,14% og Þorbjörn hf. með 5,33%. Á síðasta fiskveiðiári var Brim með 10,26%, Samherji með 6,78%, FISK-Seafood með 6,24% og Þorbjörn með 5,32%. Ísfélag hf. er annað stærsta útgerðarfyrirtækið miðað við úthlutaðar aflaheimildir eftir samruna þess við Ramma hf.
Kvótablað Fiskifrétta kemur nú út í dag í tuttugasta og fyrsta sinn. Í blaðinu er að finna upplýsingar um úthlutun aflaheimilda samkvæmt aflahlutdeild í upphafi fiskveiðiársins 2023/2024 og skiptingu þeirra. Birtur er listi fyrir kvóta nær allra íslenskra skipa og báta og kvóta eftir heimahöfnum.