Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, skrifaði grein um fyrirkomulag strandveiða sem birtist í Fiskifréttum síðastliðinn miðvikudag. Greinin birtist hér óstytt:

Á fundi LS með Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra þann 15. janúar var m.a. rætt um strandveiðar. Fram kom að strandveiðar væru eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar, ákvörðun um að fjöldi veiðidaga á vertíðinni, sem hefst 5. maí næstkomandi, verði 48. Á þann hátt verður komist hjá því að veiðar verði stöðvaðar áður en veiðitímabilið, maí–ágúst, lýkur. Fram kom hjá ráðherra að útfærsla væri nú til skoðunar í ráðuneytinu.

Breyting á lögum

Líklegt er að gera þurfi breytingu á lögum um stjórn fiskveiða til að tryggja framangreint. LS hefur talað fyrir þeirri leið að fella á brott 3. ml. 2. mgr. 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða: „Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla, að ufsa undanskildum, verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.“

Með strandveiðum er betur tryggt að allar heimildir í þorski verði að fullu nýttar. Með breytingunni verða tryggðir 48 dagar til strandveiða, jafnskipt á mánuðina, maí, júní, júlí og ágúst.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS.

Líklegt að sóknin breytist

Það er skoðun mín að fyrirhuguð breyting muni hafa áhrif á hvernig menn haga veiðunum í sumar. Líklegt er að hægja muni á sókninni þegar tryggt er að dagarnir verði 12 í hverjum mánuði til loka tímabilsins. Rétt er að benda hér á að ónýttir dagar færast ekki milli mánaða. Strandveiðar árin 2018 og 2019 voru með sama hætti og nú er boðað. Meðalfjöldi róðra (veiðidaga) á þeim árum voru 26,4. Meðalafli í þorski í hverjum róðri þá var 590 kg. Verði meðaltal í róðri á komandi sumri eins og metárið í fyrra (684 kg) má ætla að afli verði litlu meiri en þá, að því óbreyttu að bátum fjölgi ekki.

Kallar ekki á skerðingu

Heimilt er að landa 5% af heildarafla í þorski án þess að hann teljist til aflamarks. Heimilt er að landa helmingi alls undirmáls án þess að það teljist til aflamarks. Fiskur sem drepst við veiðar með botntrolli, kremst undir grjóthoppurum telst ekki til aflamarks. Drip úr tveggja daga og eldri fiski er um 4%.

Brottkast

Samkvæmt gildandi reglu gerð er gert ráð fyrir 10 þúsund tonnum af þorski til strandveiða. Verði afli meiri en gert er ráð fyrir við skiptingu aflaheimilda til jöfnunar (5,3%) er sveigjanleiki fyrir hendi jafnt og gildir um VS-afla, undirmál og fleira:

Nýtingarstefna stjórnvalda

Rétt er að vekja athygli á að á undanförnum 7 fiskveiðiárum hefur að meðaltali vantað sjö þúsund tonn upp á fullnýtingu aflaheimilda í þorski. Með strandveiðum er betur tryggt að allar heimildir í þorski verði að fullu nýttar. Þá er rétt að menn beini augum sínum að nýtingarstefnu stjórnvalda í þorski. Hún byggir á því að árlega skuli veidd um 20% af veiðistofni. Í tækniskýrslu Hafrannsóknastofnunar frá 7. júní 2024 kemur fram að veiðihlutfall á árinu 2023 hafi verið 18,2%. Samkvæmt þeirri tölu vantar rúm 20 þúsund tonn í að markmiði stjórnvalda hafi verið náð (veiðistofn 1.136.840 tonn). Spá í sömu skýrslu fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir að veiðihlutfall verði 18,7% sem jafngildir að vanveiði verði um 15 þúsund tonn.

Lagfæringar á núverandi veiðikerfi

Á fundinum þann 15. janúar áréttaði LS óskir sínar um eftirtaldar þrjár lagfæringar á strandveiðikerfinu: Tekin verði upp heimild til pörunar á umframafla, þannig að hægt verði að jafna það sem er umfram í einum róðri til næsta róðurs. Heimildin nái til 50 kg af óslægðum þorski. Háar sektir skuli greiða fyrir allt umfram 50 kg. Allur fiskur sem veiðist á strandveiðum fari í gegnum viðurkenndan fiskmarkað, nema um sé að ræða mótframlag til byggðakvóta eða til eigin vinnslu. Ríkt eftirlit verði með eignarhaldi. Auk þeirra reglna sem nú eru, skal skipstjóri vera prókúruhafi og þinglýstur eigandi af minnst 26% í fyrirtæki eða einstaklingsútgerð sem á og gerir út strandveiðibát. Skipstjóri skal skráður í fyrirtækjaskrá RSK. Smábátaeigendur – sjómenn á öllum aldri – bíða nú spenntir eftir frumvarpi ráðherra sem boðað er í Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að komi fram í mars.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.