ff
Það hefur verið annríki í Vopnafjarðarhöfn síðustu dagana. Auk þess sem uppsjávarveiðiskipin koma þangað reglulega með afla hafa verið örar afskipanir á afurðum frá uppsjávarfrystihúsi og fiskmjölsverksmiðju HB Granda á staðnum. Alls verður um 4.300 tonnum af afurðum skipað út í vikunni að verðmæti um 850 milljóna króna (fob), að því er segir á heimasíðu HB Granda.
Veiðar á makríl og vinnsla afurða hefur gengið mjög vel að undanförnu en nú er búið að veiða ríflega helming makrílkvótans eða um 8.300 tonn af 15.600 tonna kvóta. Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, héldu erlendir kaupendur að sér höndum varðandi pantanir fyrri hluta júlímánaðar, líkt og þeir gerðu tvö undanfarin ár, en nú sé farin að komast hreyfing á sölumálin og það skili sér í örari afskipunum.
Flutningaskipið Silver Copenhagen var á Vopnafirði í byrjun vikunnar og þá var skipað út um 1.400 tonnum af frystum afurðum á mánudegi og þriðjudegi. Í gær var Silver Bergen í höfn og þá var skipað út um 1.200 tonnum af frystum afurðum. Í dag var röðin komin að flutningaskipinu Havsand og mun það lesta um 1.200 tonn af mjöli. Loks má nefna að á morgun verður Silver Ocean í höfn og þá verður um 500 tonnum af frystum afurðum skipað út, segir ennfremur á vef HB Granda.