Virt norsk rannsóknastofnun, NOFIMA, gekkst í fyrra fyrir könnum meðal 300 fiskimanna og fiskkaupenda, þar sem spurt var hvort svarendur hefðu sjálfir átt þátt í því að gefa upp rangar aflatölur í þorskveiðum eða stundað  brottkast.

Niðurstöðurnar komu á óvart: Fjórir af hverjum tíu viðurkenndu að hafa svindlað með þessum hætti.

Þrálátur orðrómur var um það á síðustu vetrarvertíð í Noregi að farið væri frjálslega með aflatölur og var það tengt því að þorskkvótinn í Barentshafi var í hæstu hæðum með tilheyrandi lækkun á fiskverði. Sögusagnir gengu um brottkast á „ósækilegum“ afla og landað væri meiri afla en færður væri á skýrslur.

Svarendur töldu þó almennt að svindlið hefði verið í tiltölulega litlum mæli og vara forsvarsmenn könnunarinnar við því að of almennar ályktanir séu dregnar af niðurstöðunum, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.