Í ár munu dönsk fiskiskip veiða um 3.400 tonn af þorski í troll í Skagerrak en aðeins um 2.000 tonn munu rata í land, að því er fram kemur í frétt í danska ríkissjónvarpinu. Afganginum, 1.400 tonnum, verður hent í sjóinn aftur.
Nýir útreikningar frá dönskum vísindamönnum benda til að ríflega 40% af þeim þorski sem veiðist í troll í Skagerrak sé kastað í sjóinn og komi aldrei í land.
Vandinn er sá að togskipin eru ekki í beinni sókn í þorskinn. Þessi skip eru flest á humarveiðum eða kolaveiðum. Til að veiða þessar tegundir þarf að nota minni möska í trollið. Mikið af smáþorski veiðist sem meðafli en skipin hafa lítinn kvóta í þorski.
Þessar veiðar hafa verið gagnrýndar bæði vegna þeirrar sóunar sem á sér stað og eins vegna þess að talið er að þorskstofninn í Skagerrak sé ofveiddur. Fulltrúar útgerðarinnar viðurkenna að brottkastið eigi sér stað en benda á að ekki sé hægt að komast hjá því. Reglur Evrópusambandsins kveði beinlínis á um að fiski sem ekki er kvóti fyrir sé hent. Þeir segja sér til málsbótar að brottkast í Danmörk sé minna hlutfallslega en í öðrum ríkjum Evrópusambandsins!