Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi að afloknum 30 daga túr. Landað verður úr skipinu í dag og á morgun. Aflinn var 770 tonn upp úr sjó að verðmæti 375 milljónir króna.
Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri var ágætlega sáttur við túrinn.
„Miðað við verkefnin sem við höfðum var þetta ágætis túr. Við eyddum að vísu miklum tíma í að leita að ufsa með sorglega litlum árangri. Uppistaða aflans var ýsa, karfi og grálúða og síðan var dálítið af ufsa og þorski með. Við byrjuðum túrinn fyrir austan land en síðan var haldið suður á Selvogsbanka og á Melsekk. Þaðan var farið á Hampiðjutorgið og reynt við grálúðu og þar vorum við í um vikutíma. Í sannleika sagt var þetta hæglætistúr og býsna hefðbundinn miðað við árstíma. Þá var veður þokkalegt mestan hluta túrsins og yfir fáu að kvarta. Ráðgert er að halda til veiða á ný annað kvöld,” sagði Sigurður Hörður.