Áfallinn kostnaður við hreinsunaraðgerðir vegna síldardauðans í Kolgrafarfirði er um þrjátíu milljónir. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að heimila fjárveitingu til frekari aðgerða en kostnaður við áframhaldandi aðgerðir er áætlaður um 7,2 milljónir króna. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Hreinsun Kolgrafarfjarðar og aðgerðir vegna síldardauðans voru kynntar á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Þar kom meðal annars fram að það sé mat Umhverfisstofnunar að vel hafi tekist að hreinsa fjöruna við bæinn Eiði, þar sem mest magn af síld og grút rak á land. Þegar hafi um fimmtán til 20 þúsund tonn verið grafin í fjörunni og um 1300 tonn af grút verið tekinn og urðuð á næsta viðurkennda urðunarstað.
Það er einnig mat Umhverfistofnunar að enn sé nokkur vandi til staðar vegna grútarmengunar. Í yfirliti stofnunarinnar, sem lögð var fyrir ríkisstjórnina í morgun, kemur fram að kostnaður við áframhaldandi aðgerðir sé áætlaður um 7,2 milljónir króna, er þar meðal annars horft til þess að taka upp viðbótargrút sem rekið hefur á fjörur og urða.
Umhverfisstofnun segir að mögulega þurfi að grípa til frekari aðgerða, þar sem nokkur óvissa ríkir um hvernig ástandið verður þegar vora tekur. Það þyki því rétt að endurmeta stöðuna í lok apríl.
Um fimmtíu þúsund tonn af síld drápust í firðinum í tveimur viðburðum í vetur.