Útflutningur Færeyinga á fyrstu þremur ársfjórðungum í ár nam 5,6 milljörðum (um 91 milljarði ISK), að því er fram kemur á vef hagstofunnar færeysku. Útflutningurinn er að mestu leyti sjávarafurðir, eða rúmir 5,2 milljarðar (85 milljarðar ISK). Þetta er 900 milljónum hærri fjárhæð en á sama tíma í fyrra, eða um 20% vöxtur. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.
Eldisfiskur var fluttur út fyrir tæpa 2,6 milljarða (42 milljarða ISK). Þetta er tæpum 700 milljónum meira en á sama tíma í fyrra. Vöxturinn nemur um 36% í verðmætum en magnið jókst um 17%.
Eldislax er um 46% af öllum vöruútflutning Færeyinga og um 49% af öllum sjávarafurðum. Allt stefnir í það að Færeyingar flytji út eldislax fyrir um 3 milljarða (um 49 milljarða ISK) á öllu árinu 2016.
Útflutningur á uppsjávarfiski var um 1 milljarður (rúmir 16 milljarðar ISK) á fyrstu þremur ársfjórðungunum. Þetta er 8% aukning í verðmætum en um 17% í magni. Makríll var fluttur út fyrir um 600 milljónir (9,7 milljarða ISK).
Botnfiskur var fluttur út fyrir 836 milljónir (13,6 milljarðar ISK).
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.