Öryggistæknifyrirtækið Nortek ehf. frá Akureyri hefur gert stóran samning við tyrknesku skipasmíðastöðina Cemre Shipyard um að setja upp öryggisbúnað og tæknibúnað ásamt fullbúnu gagnaveri í fjögur íslensk skip sem eru í smíðum fyrir Samherja Ísland, Útgerðarfélag Akureyringa og Fisk Seafood.
Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum. Um er að ræða stærsta samning sem Nortek hefur gert frá upphafi og nemur verðmæti hans 350 milljónum króna. Nortek hefur lagt áherslu á að bjóða heildarlausnir fyrir sjávarútveginn og hefur sérhæft sig í öryggistækni, sérstaklega í upplýsinga- og vöktunarkerfum fyrir skip.
,,Með samningnum eru íslensku útgerðarfyrirtækin ekki einungis búin að tryggja sér búnað í hæsta gæðaflokki heldur tryggja þau sér einnig þjónustu við búnaðinn hér heima en Nortek bæði selur og þjónustar búnaðinn,” segir Guðrún Ýrr Tómasdóttir, stjórnarformaður og markaðsstjóri Nortek.
Nortek fékk það verkefni fyrir rúmum tveimur árum að safna upplýsingum frá framleiðendum búnaðar í fiskiskip, finna til besta búnaðinn og samþætta. Markmiðið var að einfalda tækniumhverfið um borð í fiskiskipum, gera vinnuumhverfið betra og auka um leið öryggi um borð,“ segir Guðrún Ýrr.
Verkefnið er að auka öryggi áhafnar, einfalda og bæta rekstraröryggi skips, samþætta og fækka skjáum í brú, losa brúna við búnað eins og tölvuviftur og straumgjafaviftur, auka stöðugleika í orkunotkun, fá öruggara varaafl (UPS), gera gagnaflutning hraðvirkari og traustari, einfalda framsetningu á upplýsingum og einfalda viðhald alls búnaðar um borð.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.