Árleg tekjuskerðing FISK Seafood á Sauðárkróki vegna niðurskurðar aflaheimilda á árunum 2004 til 2010 nemur 3,4 milljörðum króna og tekjuskerðing starfsmanna fyrirtækisins nemur á sama tíma tæplega einum milljarði króna á ári. Þetta kemur fram í viðtali við Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem birt er á vefsíðu þess .

Í viðtalinu segir að frá árinu 2004 og fram til síðasta árs hafi aflaheimildir FISK Seafood í þorski dregist saman um 31%,  í ýsu um 36% og í ufsa um 5%. Karfakvóti fyrirtækisins hefur verið skertur um 30%, grálúðan um 44% og úthafskarfa um 78%.

,,Þetta eina fyrirtæki, FISK Seafood, greiðir tæplega 500 milljónir í ár í auðlinda- og tekjuskatt, auk annarra skatta og hvað skyldi launafólkið greiða mikla skatta af þessum 3 milljarða launakostnaði til samfélagsins og ríkisins.  Augljóst er því að ríkið er að taka til sín mun meiri skatttekjur víða um land en skila sér aftur á svæðin og ekki verður lengra gengið í þeim efnum,” segir Jón Eðvarð Friðriksson.