Heildarafli íslenska flotans frá 1. september sl. til loka febrúar, nam rúmum 646 þúsund tonnum. Til samanburðar var aflinn á sama tíma í fyrra um 501 þúsund tonn. Aukningin í heildarafla milli ára, sem er upp á 29%, skýrist einkum af stórauknum  afla í loðnu miðað við sama tímabil í fyrra.

Aflamarksskip hafa nýtt um 60,5% af aflaheimildum sínum í þorski sem er svipað og í fyrra en hins vegar hafa þau veitt upp í um 58% ýsukvótans samanborið við 47% á fyrra ári.

Afli krókaaflamarksbáta í ýsu var um 5.500 tonn á fyrra helmingi yfirstandandi fiskveiðiárs og hafa þeir þá nýtt um 80,5% krókaaflamarksins í ýsu samanborið  við 72,4% á sama tíma á síðasta fiskveiðiári.  Hins vegar er nýting þorskkvótans hjá þeim í  jafnvægi, þeir hafa veitt upp í um 49% kvótans.

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.