Alls hafa eigendur 28 skipa í Noregi sótt um að fá tilraunaleyfi til þess að veiða túnfisk í ár. Leyfi verður aðeins veitt einu skipi og fær það ekki forgang að leyfinu á næsta ári. Alþjóðatúnfiskráðið hefur úthlutað Noregi 31 tonna kvóta af bláuggatúnfiski í ár. Lista yfir skipin sem sóttu um er finna á vef norsku fiskistofunnar .

Eins og áður hefur komið fram hér á vef Fiskifrétta hafa norsk stjórnvöld nú ákveðið að leyfa túnfiskveiðar að nýju eftir áratuga langt hlé.

Norðmenn voru ein þeirra þjóða sem mest veiddu af túnfiski í N-Atlantshafi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og þegar aflinn var mestur komst hann í 15.000 tonn. Veiðarnar héldu áfram á áttunda og níunda áratugnum en var hætt í kringum 1985.

Sem kunnugt er hafa íslensk skip reynt túnfiskveiðar við Ísland í seinni tíð með misjöfnum árangri. Stafnes KE fékk veiðileyfið í hittifyrra og veiddi allnokkra fiska. Í fyrra hreppti Jón Gunnlaugs GK leyfið með hlutkesti til þriggja ára en tilraunir hans til veiða á síðasta ári báru ekki árangur. Kvótinn hans í fyrra var 26 tonn. Kvótanum er úthlutað af Alþjóðatúnfiskveiðiráðinu.