Mikill urgur er í dönskum fiskimönnum yfir aðgerðarleysi stjórnvalda vegna fjölgunar sela í Eystrasalti og tilheyrandi tjóni sem þeir valda. Aðeins er leyft að veiða örfáa seli sem hefur lítil áhrif til að halda fjölda þeirra niðri. Á sama tíma fá sænskir fiskimenn bætur vegna tjóns sem selirnir valda.
Selurinn leggst meðal annars á þorsk sem veiddur er í net og lax sem veiddur er á línu. Að sögn danskra fiskimanna nartar selurinn í um 20 til 25% af þeim löxum sem þeir veiða. Þeir benda á að nýlega hafi sænskir starfsbræður þeirra fengið 14,6 milljónir sænskra króna (270 milljónir ISK) í bætur fyrir tjón sem selir valda. Sjóðurinn, sem bæturnar eru greiddar úr, hefur yfir 20 milljónum sænskra króna að ráða.