Það sem af er ári hafa færeysk skip veitt tæp 4.866 tonn af botnfiski í íslenskri lögsögu. Á sama tíma í fyrra var aflinn heldur minni eða tæp 3.813 tonn. Heildarbotnfiskaflinn er því rúmlega 27% meiri í ár en á síðasta ári.
Þorskafli færeysku skipanna er kominn í 1.088 tonn miðað við 807 tonn á sama tíma í fyrra en heimild færeyskra skipa á yfirstandandi ári eru 1.200 tonn. Færeyingar munu því að öllum líkindum veiða upp í aflaheimildir sínar í þorski í ár ólíkt árinu áður, að því er segir í frétt á vef Fiskistofu.
Alls voru 9 færeyskir línu- og handfærabátar að veiðum í íslenskri lögsögu í september-mánuði. Heildarafli skipanna var 1.293 tonn. Mest var um blálöngu í aflanum, 428 tonn og keiluaflinn var 363 tonn. Þorskaflinn var 303 tonn.